iPhone stríð á Íslandi
24. nóvember 2009 kl. - Helgi HrafnNú er það komið á hreint að Síminn og Nova hafa bæst í hóp söluaðila iPhone á Íslandi. Hingað til hefur það aðeins verið Sigurður Þór, sem rekur iPhone.is, sem hefur útvegað Íslendingum iPhone síma frá Ítalíu. Um daginn bættist ELKO í hópinn og í dag voru það Síminn og NOVA.
ELKO auglýsti iPhone á 159.995 (iPhone 3GS 16GB) og um leið lækkaði Sigurður Þór verðskránna hjá sér í 149.995 og bætti við ári í ábyrgð. Hingað til hafði hann aðeins boðið upp á eins árs ábyrgð eins og fengin á Ítalíu. Samkvæmt fréttatilkynningu Símans er verðið hjá þeim 156.900 og einni klukkustund seinna trompaði NOVA þetta með því að bjóða besta verðið hér á landi, eða 139.900. Nú er spurning hvort einhverjir lækki sig enn frekar. En ef útreikningurinn á verðlagningunni hans Sigurðar er skoðuð, sést að kostnaðarverðið hjá honum er 145.284. Það er því ólíklegt að hann lækki sig frekar.
619 + 15 = 634
634 * 184,06 = 116694,04
116694,04 * 1,245 = 145284,0798
En fyrst að síma fyrirtækin eru farin að selja iPhone, er spurning hvort þeir útvegi iPhone notendum ekki samþykktan prófíl sem setja má upp til að virkja Tethering möguleikann hér á landi. Þegar kveikt er á Tethering í iPhone er hægt að nota hann sem 3G pung í gegnum USB eða Bluetooth. Þessi möguleiki var kynntur þegar iPhone OS 3.0 kom út, en varð óvirkur í 3.1 hjá iPhone notendum hjá ósamþykktum síma fyrirtækjum. En nú er upplagt fyrir okkur iPhone notendur að herja á innlenda söluaðila til að fá þennan möguleika samþykktan hjá okkar síma fyrirtækjum.
Efnisorð: ELKO, iPhone, iPhone 3GS, NOVA, Síminn